laugardagur, 12. október 2013

Maístjarnan (Seinasti apríl) - Ljóð eftir Laxness

Ó hve létt er þitt skóhljóð
ó hve leingi ég beið þín,
það er vorhret á glugga,
napur vindur sem hvín,
en ég veit eina stjörnu,
eina stjörnu sem skín,
og nú loks ertu komin,
þú ert komin til mín.
Það eru erfiðir tímar,
það er atvinnuþref,
ég hef ekkert að bjóða,
ekki ögn sem ég gef,
nema von mína og líf mitt
hvort ég vaki eða sef,
þetta eitt sem þú gafst mér
það er alt sem ég hef.
En í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans,
það er maísólin okkar,
okkar einíngarbands,
fyrir þér ber ég fána
þessa framtíðarlands.

Maríukvæði - Ljóð eftir Laxness

Hjálpa þú mér helg og væn, 
himnamóðirin bjarta: 
legðu mína bljúgu bæn 
barninu þínu að hjarta. 
Þá munu ávalt grösin græn 
í garðinum skarta, 
í garðinum mínum skarta. 

Bænheit rödd mín biður þín, 
blessuð meðal fljóða; 
vertu æ uns ævin dvín 
inntak minna ljóða; 
móðir guðs sé móðir mín 
og móðir þjóða, 
móðir allra þjóða. 

Kenn mér að fara í för þín ein, 
fram að himnaborðum, 
leiddu þennan litla svein, 
líkt og son þinn forðum. 
Líkt og Krists sé heyrn mín hrein 
að hlýða orðum, 
hlýða þínum orðum.

Únglíngurinn í skóginum - Ljóð eftir Laxness

Mig dreymdi ég geingi útí skóg einsog í fyrra þegar ég gekk útí skóg með stöllu minni; og stóð ein í rjóðrinu við lækinn. 

Og þá kemur únglíngurinn í skóginum með úngan teinúng í hendi, klæddur skikkju ofinni úr laufum. 

Og hann hleypur frammá bakkann, lýtur niðrað læknum, eys upp vatni í lófa sér, þeytir á loft og seigir:



(Hann: )



Eia!

Eia perlur! Eia gimsteinar!

Eia leikur

leikur í sólskini

útí skógi!

Hvert fór skógurinn,

kysti animónur og hló,

animónur og animónur

og fór að gráta?

Táta,

kondu táta,

kondu litla nótintáta

að kyssa pótintáta

útí skógi!



(Hún: )



Svei attan.



(Hann: )



Títa,

litla grýta,

liljan hvíta,

mýrispýta,

lindargullið og eldflugan mín,

hér kem ég að sjá þig, sjá þig,

Máni frá Skáni

kominn af Spáni

til að sjá þig,

spámáni frá Skáni

skámáni frá Spáni

frá Skámánaspáni

og á þig, á þig – 



(Hún: )



Aldrei skaltu fá mig!



(Hann: )



Ó ég veit alt um þig

alt hvað þú ert lítil

lítil og skrítin,

því ég er Safír

frá Sahara í Aharabíu

Saba í Abaríu

og veit alt, Abari frá Sabarí

Saraba í Arabíu

og veit altaltaltaltaltaltalt

Alt



(Hún: )



Þú veist ekki eitt, ert ekki neitt.



Hann laut yfir lindina, las það sem speglast í gárunum.



Og degi tók að halla

og dagur tók að hljóðna,

eólan dúrar,

aftanskin í lundi.



Meðan kliður dagsins

í kveldsins friði

eyddist

og niður lagsins

í eldsins iði

deyddist

rétti hann mér höndina, benti til sólar og saung:



Eia ég er skógurinn

skógurinn sjálfur:

Morgunskógurinn drifinn dögg

demantalandið;

ég er miðdegisskógurin,

málþrastarharpan;

kvakandi kvöldskógurinn

rökkurviðurinn

reifður hvítum þokum;

grænklæddur gaukmánuður

guðlausra jarðdrauma,

himneskur losti

heiðinnar moldar.

Og skepnan öll drekkur sig drukkna undir mínum laufum.



Ég er hundraðlitur haustskógarsinfónninn

og sjá, blöð mín falla,

þau falla til jarðar

og deyja

troðin stígvélum fuglarans.

Og haukarnir setjast á hvítar greinar.

Og hundar galdramannsins snuðra í föllnum laufhaddi mínum.



Þá þótti mér ég fara að gráta og þá vaknaði ég.

miðvikudagur, 9. október 2013

Ritverk Halldórs

Skáldsögur

1919 - Barn náttúrunnar
1924 - Undir Helgahnúk
1927 - Vefarinn mikli frá Kasmír
1931-32 - Salka Valka
1934-35 - Sjálfstætt fólk
1937-40 - Heimsljós
1943-46 - Íslandsklukkan
1948 - Atómstöðin
1952 - Gerpla
1957 - Brekkukotsannáll
1960 - Paradísarheimt
1968 - Kristnihald undir Jökli
1970 - Innansveitarkronika
1972 - Guðsgjafarþula


Smásögur

1923 - Nokkrar sögur
1933 - Ungfrúin góða og húsið
1933 - Fótatak manna
1935 - Þórður gamli halti
1942 - Sjö töframenn
1954 - Þættir (Fótatak manna, Þórður gamli halti, Sjö töframenn)
1965 - Sjöstafakverið

Leikrit

1934 - Straumrof
1950 - Snæfríður Íslandssól (Upp úr Íslandsklukkunni)
1954 - Silfurtúnglið
1961 - Strompleikurinn
1962 - Prjónastofan Sólin
1966 - Dúfnaveislan 
1970 - Úa (upp úr Kristnihaldi undir Jökli)
1972 - Norðanstúlkan (Upp úr Atómsstöðinni)

Kvikmyndir eftir bókum Halldórs

1954 - Salka Valka
1972 - Brekkukotsannáll
1981 - Paradísarheimt
1984 - Atómstöðin
1989 - Kristnihald undir Jökli
1999 - Ungfrúin góða og húsið

Ljóð

1930 - Kvæðakver

Ritgerðir og greinar

1925 - Kaþólsk viðhorf
1929 - Alþýðubókin
1937 - Dagleið á fjöllum
1942 - Vettvángur dagsins
1946 - Sjálfsagðir hlutir
1950 - Reisubókarkorn
1955 - Dagur í senn
1959 - Gjörninabók
1963 - Skáldatími
1965 - Upphaf mannúðarstefnu
1967 - Íslendíngaspjall
1969 - Vínlandspúnktar
1971 - Yfirskygðir staðir
1974 - Þjóðhátíðarrolla
1977 - Seiseijú, mikil ósköp
1981 - Við heygarðshornið
1984 - Og árin líða
1986 - Af menningarástandi

Ferðasögur

1933 - Í Austurvegi
1938 - Gerska æfintýrið

Minningasögur

1952 - Heiman eg fór
1975 - Í túninu heima
1976 - Úngur eg var
1978 - Sjömeistarasagan
1980 Grikklandsárið
1987 - Dagar hjá múnkum

Halldór Laxness: Sagan bakvið manninn

Halldór var fæddur 23. apríl 1902 og dó 8. febrúar 1998, þá 96 ára gamall. Hann var íslenskur rithöfundur og skáld og er jafnframt eini Íslendingurinn sem hefur hlotið Nóbelsverðlauninn í bókmenntum. Þetta gerði hann árið 1955. Hann giftist tvisvar og átti fjögur börn. Foreldrar hans, Sigríður Halldórsdóttir og Guðjón Helgason, bjuggu með hann í Reykjavík fyrstu þrjú árin í lífi hans en fluttu síðan með hann að Laxnesi í Mosfellssveit.  Halldór var elstur þriggja systkina og jafnframt eini strákurinn. Systur hans voru Sigríður og Helga. Þau bjuggu öll ásamt foreldrum sínum á Laxnesi.

Þegar Halldór var ungur ferðaðist hann mikið. Hann var m.a. í klaustri í Lúxemborg á árunum 1922-1923 og tók hann þar upp Kaþólska trú. 6. Janúar 1923 var hann skírður og fermdur til þeirrar trúar. Auk þess að dvelja í Lúxemborg dvaldi Halldór einnig í Vesturheimi, en hann var þar frá árinu 1927 til 1929.